Ferill 335. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 861  —  335. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Teiti Birni Einarssyni um riðu.


     1.      Hvernig er vinnu starfshóps um útfærslu á nýrri aðferðafræði við að útrýma riðuveiki háttað, hverjir koma að henni og hvenær er niðurstöðu að vænta í ljósi þess að málið er afar brýnt?
    Sérfræðingahópinn skipuðu þau Erla Sturludóttir, dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands, Hákon Hansson dýralæknir, Jón Hjalti Eiríksson, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands, Ólafur Jónsson héraðsdýralæknir, Stefanía Þorgeirsdóttir, líffræðingur hjá Tilraunastöð HÍ að Keldum, Vilhjálmur Svansson, dýralæknir hjá Tilraunastöð HÍ að Keldum og Thor Aspelund, prófessor við HÍ í líftölfræði.
    Hópnum var samkvæmt skipunarbréfi falið að vinna að eftirfarandi verkefnum:
          Leggja mat á árangur aðgerða stjórnvalda frá því að skipulagður niðurskurður hófst á níunda áratug síðustu aldar, tölfræðilega útreikninga og mat á því hvort riðuveiki hafi verið útrýmt annars vegar og hins vegar hvort hverfandi líkur (e. negligible) séu á uppkomu riðuveiki á einhverjum svæðum þar sem riðuveiki var áður landlæg.
          Leggja mat á væntanlegan árangur ræktunar verndandi arfgerða og hugsanlega verndandi arfgerða, sbr. greinargerð Landbúnaðarháskóla Íslands frá apríl 2023, þannig að líkur á uppkomu riðuveiki séu metnar hverfandi eftir tiltekinn árafjölda og á tilteknum landsvæðum.
          Leggja mat á gildi mögulegra smitvarna til að hefta útbreiðslu riðusmits, þar á meðal notkun afrétta og fyrirkomulag fjárrétta, og flokka eftir mikilvægi.
          Leggja mat á smitvarnarráðstafanir í hjörðum þar sem riða hefur verið staðfest ef ekki yrði skorið niður eða aðeins hluti hjarðar skorinn niður.
          Leggja mat á gildi núverandi fyrirkomulags varnarlína/varnargirðinga með tilliti til hafta á útbreiðslu riðusmits.
          Önnur fagleg álitamál um riðuveiki og varnir gegn henni sem upp kunna að koma við framvindu verkefnisins.
    Með bréfi dags. 1. nóvember sl. skilaði sérfræðingahópur um riðuveiki skýrslu sem ber heitið Aðgerðir gegn riðuveiki – ný nálgun með verndandi arfgerðum. Skýrsluna er að finna á vef ráðuneytisins, www.mar.is. 1

     2.      Hefur komið til greina að verða við ósk bænda um að innleiða tímabundið, meðan á vinnu starfshópsins stendur, ákvæði 2.3, 3., 4., 5. og 6. tölul. í kafla A í viðauka VII í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 999/2001 með síðari breytingum er varða útrýmingu smitandi heilahrörnunar í sauðfé og geitum? Ef ekki, hvers vegna?
    Ákveðið var að bíða eftir skýrslu sérfræðingahópsins en hann rýndi umræddar tillögur bænda. Á bls. 22 í skýrslu starfshópsins er fjallað um tillögur sauðfjárbænda.
    Í samræmi við tillögu sérfræðingahópsins hefur ráðherra gert breytingu á reglugerð nr. 651/2001 um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar, sbr. breytingarreglugerð nr. 1152/2023, sem veitir yfirdýralækni heimild til að leggja til við ráðherra að lóga hluta hjarðar sé arfgerð um næmi fyrir riðu þekkt í hjörð eða að undangenginni arfgerðargreiningu.

     3.      Hver er afstaða ráðherra til þess að ráðast í endurskoðun á ákvæðum IV. kafla reglugerðar nr. 65/2001 um útrýmingu á riðu og bætur vegna niðurskurðar, sem er að stofni til óbreytt frá árinu 2001?
    Sérfræðingahópurinn leggur til breytta nálgun þegar upp kemur riða á bæjum, sbr. það sem að framan greinir. Er þannig lagt til að endurskoðuð verði markmið um upprætingu smitefnis á riðubæjum og að kannaðar verði vægari kröfur um hreinsun og fjárleysi. Í kjölfar skýrslunnar er ráðuneytið að skoða og greina hvort/hvaða breytingar þurfi að gera á regluverkinu til þess að innleiða tillögur hópsins.

     4.      Telur ráðherra að gildandi ákvæði laga og reglugerða tryggi nægjanlega vel að komið sé að fullu til móts við þá sem verða fyrir tjóni vegna niðurskurðar á fé?
    Tjónið, bæði samfélagslegt og efnislegt, sem hefur orðið vegna riðuveiki á síðustu áratugum er nánast ómögulegt að bæta að fullu þó svo að efnislegt tjón sem verði af niðurskurðinum sé bætt. Í lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993, er fjallað um bótarétt eigenda búfjár sem fargað er samkvæmt fyrirmælum ráðherra að tillögum Matvælastofnunar, en þeir eiga rétt á bótum úr ríkissjóði. Nánar er fjallað um bótagreiðslur í reglugerð nr. 651/2001 um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar. Eigendur búfjár sem fargað er vegna riðuveiki eiga rétt á bústofnsbótum og afurðatjónsbótum í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Jafnframt eru greiddar bætur vegna förgunar á lausamunum og vegna förgunar á heyi sem ekki er unnt að nýta. Þá fá bændur einnig áfram gæðastýringargreiðslur og greiðslur á grundvelli búvörusamninga. Framangreindum bótagreiðslum er ætlað að koma til móts við þau sem verða fyrir tjóni vegna niðurskurðar á fé.

     5.      Hvernig eru réttindi og hagsmunir bænda, sem þurfa að sæta niðurskurði, tryggð ef ekki næst samkomulag við ráðuneyti um fjárhæð bóta innan lögbundins tímafrests?
    Bændasamtök Íslands hafa veitt bændum lögfræðiráðgjöf og verið bændum innan handar við samningagerð. Náist ekki samningar er unnt að fela matsnefnd eignarnámsbóta að fara með málið.

     6.      Hvernig er staða arfgerðargreininga sem tilkynnt var um í lok apríl að yrði ráðist í til að greina megi árlega 15–40 þúsund fjár?
    Í kjölfar þess að ráðherra samþykkti tillögu yfirdýralæknis um breytta nálgun í útrýmingu á riðuveiki var samþykkt í ríkisstjórn að stjórnvöld myndu beita sér með fjárframlögum fyrir því að unnt væri að hraða innleiðingu á verndandi arfgerðum í íslenskt sauðfé, enda væri afraksturinn hratt minnkandi líkur á riðusmiti með tilheyrandi kostnaði. Sauðfjárbændur hafa í gegnum fagráð í sauðfjárrækt lagt fram áætlun, sem fjallað er um í skýrslu sérfræðingahóps, um hvernig hraða megi innleiðingu (sjá svar við 1. tölul. fyrirspurnar). Ákveðið hefur verið að niðurgreiða hluta kostnaðar sem hlýst af arfgerðargreiningum á þessu ári. Samkvæmt Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, RML, hafa verið tekin á fjórða tug þúsunda sýna. Á næsta ári er gert ráð fyrir 110 millj. kr. framlagi til þess að hraða innleiðingu verndandi arfgerða. Þá hefur einnig verið ákveðið að niðurgreiða að öllu leyti notkun á sæðingarhrútum sem bera verndandi arfgerð í vetur. Vonir standa til að notkun þeirra verði með mesta móti því að þannig má flýta fyrir því að lokasigur vinnist gegn riðuveiki á Íslandi. Miðað við stöðuna 19. desember eru líkur til að þær vonir rætist, en sæðingar hafa verið með mesta móti hingað til. Samtals verður varið 58 millj. kr. á yfirstandandi ári til niðurgreiðslu á notkun sæðis úr sæðingarhrútum sem bera verndandi og mögulega verndandi arfgerðir og til að koma til móts við kostnað bænda af arfgerðargreiningum.

     7.      Hver er kostnaður árin 2002–2022 við hvert riðutilvik sem hefur komið upp, sundurliðaður eftir ári á verðlagi ársins 2022?
    Sjá svar við 8. tölul. fyrirspurnar.

     8.      Hver er kostnaður árin 2002–2022 vegna bóta til bænda sem þurfa að skera niður, sundurliðaður eftir árum og efnisflokki bóta á verðlagi ársins 2022?
    Umbeðnar upplýsingar liggja ekki fyrir sundurliðaðar í ráðuneytinu. Leggjast þyrfti í umfangsmikla vinnu við að safna saman þessum upplýsingum. Heildarkostnaður vegna riðuveiki fyrir árin 2021 og 2022 hefur verið tekinn saman og kemur fram í eftirfarandi töflu. Greiðslur sem bændur á bæjum sem riða hefur komið upp fá í gegnum búvörusamninga koma ekki fram í töflunni.

Ár Fjárhæð
2021 407.425.537 kr.
2022 169.683.396 kr.
Samtals 577.108.933 kr.


1     www.stjornarradid.is/library/01--Frettatengt---myndir-og-skrar/MAR/Fylgiskjol/Riða_Sérfræði ngahópur_skýrsla.pdf